top of page
Þjálfarar og starfsfólk í skipulögðu rafíþróttastarfi

Skipulagt rafíþróttastarf hefur verið að festa sig í sessi á Íslandi síðan 2018 og hefur margt lærst á leiðinni. Eitt af því helsta sem hefur komið í ljós er mikilvægi starfsins, sérstaklega hvað varðar forvarnar- og lýðheilsumál barna og ungmenna.

 

Enn eru flest sem koma að þjálfun og stjórn skipulagðrar rafíþróttastarfsemi af kynslóð sem ólst upp án slíks starfs í umhverfi sínu og jafnvel ólst upp í tölvuleikja- og netheimi án raunverulegrar veru eða yfirsjón fullorðinna. Þau sem þekkja þetta tímabil geta eflaust flest staðfest að internetið var einskonar villta vestur 21. aldarinnar en ofan á það einnig stýrt að mestu af unglingum í þokkabót.

Að stýra og sjá um rafíþróttastarf fyrir börn og ungmenni er ekki einungis að þjálfa getu í tölvuleikjum, heldur jafnframt að standa vörð um að iðkendur læri um samskipti, netöryggi, og í raun netheilsu, til að tryggja velferð þeirra bæði á netheimum og í raunheimum.

Rafíþróttir eru vettvangur sem jafnframt getur náð til aukins fjölda barna vegna þess hve auðvelt aðgengi er að íþróttinni og hve breiður áhugi er af tölvuleikjum hjá börnum. Skipulagt rafíþróttastarf getur hentað börnum sem illa finna sig í öðru skipulögðu starfi, börn með skerta hreyfigetu sem eiga erfitt með að taka þátt í hefðbundnari íþróttum eiga oft auðveldara með að taka þátt í rafíþróttum, börn sem eiga í öðrum aðstæðum erfitt með hegðun finnst oft auðveldara með að taka þátt í rafíþróttum þar sem reglur leiksins veita að jafnaði meira aðhald, og börn sem eiga erfitt með samskipti eiga aukið brautgengi í samskiptastíl rafíþrótta, svo eitthvað sé nefnt.

Heilbrigð nálgun í rafíþróttum

Í ýktum skilningi mætti tæknilega séð segja að þjálfun í rafíþrótt sé aukaatriði rafíþróttaþjálfara. Börn og ungmenni sem mæta á æfingar til þín geta hæglega verið betri en þú í leiknum og jafnvel lítið sem þú getur kennt þeim „mechnically“. Hætta getur jafnvel skapast á því að iðkendur vilji síður hlusta á þig vegna þessa - en hikaðu þá ekki við að benda á að þjálfari Messi er ekki endilega betri en hann á vellinum, er það nokkuð? (eða grípa aðra sambærilega líkingu).

Það sem ætti að vera rafíþróttaþjálfara efst í huga við þjálfun á iðkendum er hvernig hægt sé að nota rafíþróttir sem nálgun eða tól til að huga að heilsu og vellíðan þeirra og kenna þeim góða siði. Efst á lista eru samskipti við aðra, og kemur þar inn mikilvægi þess að hafa æfingar í persónu og í hóp. Á æfingu býr þjálfari til tækifæri til að rækta jákvæða hegðun, s.s. markvissa nálgun í iðkun, og grípur tækifæri til að benda á og leiðrétta neikvæða hegðun, s.s./þ.h. óheilbrigð og neikvæð samskipti.

Önnur mikilvæg efni eru mikilvægi svefns, hollt mataræði, vatnsdrykkja, hreyfing, og umhugun um andlega vellíðan. Að rafíþróttaönn lokinni eiga iðkendur ekki að ganga út sem betri í þeim leik sem þau æfðu, heldur sem betri liðsfélagar og einstaklingar með betri skilning á sinni eigin heilsu og vellíðan - bæting í leik fylgir svo í kjölfarið.

Hér eru dæmi um nálganir sem notast við rafíþróttir sem tól til að tækla þau málefni sem mikilvægt er að iðkendur taki inn:

1. Samskipti

Með betri samskiptum vinnurðu betur saman með liðinu þínu og með betri samvinnu aukast líkur á sigri. Með betri samskiptum af þinni hálfu minnkarðu jafnframt líkurnar á „toxic“ samskiptum frá öðrum í liðinu.

2. Félagsleg færni

Umfram samskipti þá er mikilvægt að rækta félagsleg tengsl. Slík tengsl geta bæði opnað á ýmsa möguleika (t.d. tækifæri til að komast í lið) eða í það minnsta eignastu góða félaga til að spila með frekar en að þurfa alltaf að spila með ókunnugum.

3. Svefn

Lélegur svefn hefur áhrif á frammistöðu og eykur líkur á tapi. Til hvers að vaka lengur og spila illa þegar þú getur farið fyrr að sofa og spilað jafn lengi en betur næsta morgun í staðinn?

4. Hollt mataræði og hreyfing

Líkamleg heilsa og hreysti minnkar þreytu og eykur tímann sem þú getur einbeitt þér við spilun. Einbeitt spilun er ekki einungis betri spilun þá stundina sem hún á sér stað heldur skilar hún sér líka í betri framförum og bætingum.

5. Vatnsdrykkja

Vatnsskortur hefur mjög hratt áhrif á heilann t.d. hvað varðar viðbragðsflýti. Það er því mikilvægt að vera vel vökvaður en sykur, koffín, og flest önnur bætiefni eiga það til að rífa mann niður tiltölulega stuttu eftir notkun og því er vatn best.

6. Andleg vellíðan

Styrkur á andlegu hliðinni tryggir að maður hugsi skýrar undir erfiðum kringumstæðum og gefist ekki jafn auðveldlega upp. Allir leikir eiga fræg dæmi um dauðadæmdan leik sem tókst að snúa við og það gæti jafn auðveldlega átt sér stað fyrir þig.

Verkfæri rafíþróttaþjálfara

Mikilvægustu verkfæri rafíþróttaþjálfara til að tryggja velferð barna og ungmenna í sinni umsjá eru fræðsla og verklag.

Með verklagi er átt við þær lausnir sem þjálfari notar til að móta sín vinnubrögð og sína nálgun, og jafnframt til að takast á við og vinna úr þeim vandamálum sem kunna að koma upp. Helstu atriði verklags eru stefna, staðlar, verkferlar, og málsmeðferð.

  • Stefna veitir þjálfuninni framtíðarsýn og aðstoðar við að stýra starfinu í rétta átt. Stefnu RÍSÍ má finna hér sem dæmi.

  • Staðla mætti hugsa um sem formfestar kröfur félagsins eða þjálfarans gagnvart sjálfum sér sem þarf að uppfylla í þjálfun.

  • Verkferlar tryggja að til sé aðgerðaráætlun þegar upp koma atvik. Ferla RÍSÍ í ofbeldismálum má finna hér og ferla RÍSÍ í málum er varða farsæld barna má finna hér.

  • Málsmeðferð tryggir að unnið sé úr málum á gegnsæjan og skilvirkan hátt. Málsmeðferð RÍSÍ í málum er varða farsæld barna má finna hér.

 

Rafíþróttaþjálfurum er bent á þjálfarahandbók RÍSÍ sem finna má hér. Handbókin var unnin með erlendum samstarfsaðilum og er því á ensku enn um sinn, en unnið er í þýðingu hennar. Í handbókinni er fjallað ítarlegar um margt sem viðkemur þjálfun rafíþrótta.

 

Jafnframt halda RÍSÍ þjálfaranámskeið sem opin eru öllum gegn vægu gjaldi í upphafi hverjar rafíþróttaannar, að jafnaði í ágúst og janúar - fylgjast má með samfélagsmiðlum RÍSÍ til að fá tilkynningu um dagsetningar slíkra námskeiða.

Farsæld, velferð og vellíðan barna

Hafir þú áhyggjur af velferð barns bendum við á úrræði Farsæld Barna og Ertu Okei:

Farsæld Barna veitir upplýsingar um hvert má leita þegar áhyggjur vakna um farsæld barns. Nánari upplýsingar má nálgast hér: https://www.farsaeldbarna.is/

 

Ertu Okei veitir upplýsingar um hvert má leita þegar áhyggjur vakna um andlega vellíðan barns. Nánari upplýsingar má nálgast hér: https://www.ertuokei.is/

bottom of page