
Framhaldsskólaleikar Rafíþróttasambands Íslands
FRÍS, eða Framhaldsskólaleikar RÍSÍ, er rafíþróttakeppni íslenskra framhaldsskóla sem haldin var í fyrsta sinn vorið 2021 þar sem Tækniskólinn stóð uppi sem sigurvegari. Keppnin fór fram í annað sinn vorið 2022 og sigraði Tækniskólinn þar FRÍS annað árið í röð. Árið 2023 vann svo FVA en sá skóli hafði lent í öðru sæti árið 2022. Að jafnaði hafa 14 skólar tekið þátt í FRÍS á hverju ári.
Sigurvegarar FRÍS
2021 : Tækniskólinn
2022 : Tækniskólinn
2023 : FVA
Hvaða skóli verður FRÍS meistari 2024?
FRÍS 2024 hefst í janúar og í ár verður keppt í þremur tölvuleikjum líkt og áður, Counter-Strike, Rocket League og Valorant. Einnig verður samfélagsmiðlakeppni FRÍS að sjálfsögðu á sínum stað líkt og áður til að hvetja keppendur til að huga að líkama og sál. Sýnt verður frá undanúrslitum og úrslitum FRÍS í vikulegum þáttum á miðvikudögum á Stöð 2 Esport og twitch.tv/rafithrottir
Skráning í FRÍS verður auglýst síðar
Upplýsingar fyrir FRÍS 2023 ** Athugið að þetta er fyrir 23 ekki 24**
Skráningarform, reglur og þátttökugjald
Skráningarformið fyrir FRÍS 2023 má nálgast hér: https://forms.gle/rZsvRotns1Nf1uTE6, en þar má einnig finna reglur fyrir alla þrjá leikina sem keppt verður í.
Þátttökugjaldið fyrir FRÍS er 35.000 kr á skóla.
Liðin / keppendur
Keppendur í aðalliði CS:GO skulu vera fimm**, keppendur í aðalliði Rocket League skulu vera þrír og keppendur í aðalliði Valorant skulu vera fimm**. Varamenn mega síðan vera allt að þrír í hverjum leik. Í ár verður það skilyrði fyrir þátttöku í FRÍS að keppendur í Valorant liði skólans séu af fleiri en einu kyni, en það verður ekki krafa í CS:GO og Rocket League liðunum. Einnig verður það krafa í ár að í 50% leikja sem spilaðir verða í undankeppni FRÍS verði keppendur í Valorant liði skólanna af fleiri en einu kyni.
**Athugið að keppandi má aðeins vera í CS:GO liði eða Valorant liði skóla, þ.e. ekki er leyfilegt að hafa sömu keppendur í CS:GO og Valorant liðunum. Mótsstjórn FRÍS getur veitt undanþágu á þessu en við viljum að sjálfsögðu að liðin séu fjölbreytt og að fleiri nemendur fái tækifæri á að keppa í FRÍS svo stjórnin mun aðeins veita undanþágu þegar virkileg þörf er á því.
ATHUGIÐ - Til þess að eiga möguleika á því að keppa í úrslitakeppninni (fara áfram í undanúrslit FRÍS) þarf að vera með lið í öllum þremur leikjunum. Líkurnar á að komast áfram í undanúrslitin aukast með því að taka þátt í samfélagsmiðlakeppninni þar sem keppendur geta nælt sér í aukastig með því að sinna ýmsum mikilvægum hlutum eins og að stunda hreyfingu eða sinna heimanáminu.
Ábyrgðaraðili og tengiliður skóla
Hver skóli þarf að hafa ábyrgðaraðila skráðan á skráningarform FRÍS sem skal vera kennari / starfsmaður skólans. Einnig er valkvætt að hafa tengilið, sem má vera kennari / starfsmaður / nemandi og verður hans meginhlutverk það að vera tengiliður við mótshaldara, en einnig þarf hann að sjá til þess að nemendur undir 18 ára aldri fylli út leyfisbréf fyrir þátttöku (leyfisbréf verða send út þegar skólarnir hafa lokið skráningu), sjá til þess að allir keppendur skólans séu skráðir á Discord-þjón FRÍS, sem nálgast má hér: discord.gg/Wk4GvrMjXR, þekkja reglurnar og geta miðlað upplýsingum frá mótsstjórn (sé tengiliður ekki skráður fellur hlutverk hans til ábyrgðaraðilans).
Sniðmát mótsins / leikdagar
FRÍS hefst mánudaginn 23. janúar og líkt og síðastliðin tvö ár munum við byrja mótið á deildarkeppni í hverjum og einum leik. Að þessu sinni munu allar deildirnar hefjast á sama tíma og hver deild verður spiluð yfir þrjár vikur. Það verða tveir fastir leikdagar í viku, á mánudögum og fimmtudögum, og því má áætla að eftirfarandi dagar verði leikdagar í deildarkeppnunum og leiktími klukkan 20:00. Leyfilegt verður að semja um breytta tímasetningu en til þess þarf samþykki beggja liða og mótsstjórnar.
-
23. janúar - Mánudagur
-
26. janúar - Fimmtudagur
-
30. janúar - Mánudagur
-
2. febrúar - Fimmtudagur
-
6. febrúar - Mánudagur
-
9. febrúar - Fimmtudagur
Þegar deildarkeppnunum lýkur mun síðan taka við útsláttarkeppni þar sem spilað er um fyrstu fjögur sætin í hverri deild, og verða þeir leikir á eftirfarandi dögum:
-
13. febrúar - Mánudagur
-
16. febrúar - Fimmtudagur
Þessar dagsetningar eru þó ekki heilagar, það bætast mögulega við nokkrir leikdagar ef fjöldi liða verður meiri en við erum að áætla.
Útsendingar á FRÍS og úrslit
Útsendingar á FRÍS hefjast eftir að deildarkeppnunum lýkur og líkt og í FRÍS 2022 munu 8 skólar komast áfram í undanúrslit. Fyrsta útsending FRÍS verður miðvikudaginn 1. mars og verða þær 7 talsins, alltaf á miðvikudögum.
Úrslit FRÍS verða því miðvikudaginn 12. apríl og munu þau fara fram í Arena, þjóðarleikvang rafíþrótta á Íslandi, og eru liðin sem verða í úrslitum skyldug til þess að mæta í Kópavoginn til þess að keppa í úrslitunum. Þeir leikir sem verða spilaðir í úrslitum FRÍS eru einu leikirnir þar sem keppendur þurfa að mæta á staðinn til þess að spila.
Hægt er að hafa samband við Ásdísi Erlu, vörustjóra FRÍS, fyrir nánari upplýsingar eða spurningar varðandi mótið á asdis@rafithrottir.is.
Ekki hika við að hafa samband ef einhverjar spurningar vakna!
