top of page
Foreldrar og forráðamenn

Hvað þýðir það fyrir nútíma foreldra að eiga barn sem hefur áhuga á rafíþróttum? Hvað er hægt að gera til að tengjast barninu og ná utan um allt það sem er að gerast hjá barninu?

 

Rafíþróttir er hugtak sem margir foreldrar eru enn að átta sig á og oft er spurt spurninga líkt og „Horfir fólk á aðra spila tölvuleiki?“, „Er þetta ekki tímaeyðsla og óuppbyggilegt?“, „Er barnið mitt ekki bara að einangra sig í tölvunni?“

Á síðustu árum hafa rafíþróttir þróast umfram viðurkenningu sem lögmæt íþrótt og hefur þetta breyst í margra milljarða dollara iðnað. Yfir 500 milljónir einstaklinga skilgreina sig sem rafíþróttaiðkendur um heim allan. Á árinu 2019 þénuðu um 25 þúsund fag- og afreksrafíþróttamenn samanlagt rúmlega 250 milljarða íslenskra króna á heimsvísu. Tölvuleikjaiðnaðurinn í reynd veltir meira en kvikmynda- og tónlistaiðnaðurinn í Bandaríkjunum gera til samans.

 

Að furða sig á áhuga barnsins þíns á rafíþróttum og að hafa áhyggjur af þeim tíma sem barnið eyðir í tölvuleik eru algengar og lögmætar áhyggjur, en aukinn skilningur og stuðningur við áhuga barnsins á rafíþróttum og tölvuleikjum er frábær leið til að skilja hagsmuni og kosti þessarar vaxandi íþrótt.

 

Rafíþróttir geta veitt andlegan styrk og félagsmótun þegar þær eru iðkaðar með öðrum og með því að vinna með liði verða leikmenn að taka millisekúndna ákvarðanir, samræma áætlanir og læra gildi og færni svipuð þeim sem öðlast er í hefðbundnum íþróttum. Rafíþróttir stuðla einnig að liðsheild og félagsskap ásamt því að velgengni byggir upp sjálfsálit og sjálfstraust.

Finna má fræðsluefni fyrir spilara (einnig unga spilara) hér. Foreldrar hafa einnig gott af því að kynna sér það efni.

Skipulagt rafíþróttastarf

Líkt og í öllu öðru þarf metnað og þrautseigju til að vera góður í tölvuleikjum. Í hefðbundnari íþróttum eru krakkar hvattir til að æfa klukkustundum saman til þess að fullkomna færni sína. Við þjálfun og æfingu í rafíþróttum þarf þó einnig að viðhalda heilbrigðu jafnvægi til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif ofspilunar. Ef barnið þitt sýnir hæfileika, ástríðu og áræðni skaltu hjálpa því að finna rétt jafnvægi þar á milli.

Með þátttöku í skipulögðu rafíþróttastarfi getur barnið lært að nýta tíma sinn betur og huga sjálft betur að ofspilun. Undir handleiðslu þjálfara fær barnið fræðslu um mikilvægi hreyfingar, svefns, mataræðis, og andlegrar vellíðan sem hluta af velgengni í rafíþróttaiðkun. Jafnframt tekur barnið þátt í umhverfi sem styrkir það félagslega og kennir því samskipti og öryggi á netinu.

Skipulagt rafíþróttastarf getur hentað börnum sem illa finna sig í öðru skipulögðu starfi, en flest börn hafa áhuga á tölvuleikjum. Rafíþróttir eru einnig opnar ólíkum iðkendum og eru ekki útilokandi; börn með skerta hreyfigetu sem eiga erfitt með að taka þátt í hefðbundnari íþróttum eiga oft auðveldara með að taka þátt í rafíþróttum, börn sem eiga í öðrum aðstæðum erfitt með hegðun finnst oft auðveldara með að taka þátt í rafíþróttum þar sem reglur leiksins veita að jafnaði meira aðhald, og börn sem eiga erfitt með samskipti eiga aukið brautgengi í samskiptastíl rafíþrótta, svo eitthvað sé nefnt.

Skipulagt rafíþróttastarf má nú finna víðsvegar um landið. Aðildarfélög RÍSÍ eru flest með skipulagt rafíþróttastarf fyrir börn og ungmenni. Lista yfir aðildarfélög má finna hér.

Foreldrar sem vilja kynna sér betur viðurkenndar þjálfunaraðferðir í rafíþróttum eru hvattir til að skoða þjálfunarhandbók RÍSÍ hér.

Rafíþróttir, börn og heilbrigð nálgun

Mikilvægt er að foreldrar eigi góð samskipti við börnin sín þegar kemur að tölvuleikja- og rafíþróttaiðkun. Með samskiptum greiðist brautin til að vera með í þátttöku barna sinna foreldri getur stutt við áhuga barns síns á heilbrigðan hátt. Til að liðka við samskiptum bendum við jafnframt á íðorðabók rafíþrótta hér.

 

Oftar en ekki kemur hér næsta skref spurninga: Hvað má barnið spila lengi?“, Hver á skjátími barna að vera?, og fleiri í sama dúr. Athugið að spurningum er varða aldursviðmið tölvuleikja er svarað hér.

Eins og hverju öðru í lífinu gildir það að það eru engar flýtileiðir. Sem mikilvægir fullorðnir einstaklingar (foreldrar, frændur, frænkur, fyrirmyndir, starfsfólk í nærumhverfi) í lífi marga barna, er það undir okkur komið að búa til heilbrigðan farveg og umhverfi þar sem þeir einstaklingar sem sækja mikið í tölvuna geta notið sín.


1. Setjum rafrænan útivistartíma

 

Með stafrænum útvistartíma er átt við þegar foreldrar samstilla sig við foreldra vina barnanna okkar og setja í sameiningu, með börnunum, reglur um tölvunotkun. Hverju barni er ekki gefinn viss mikill spilatíma og vinirnir þræða síðan hvert heimilið á fætur öðru og klára tölvutímann hjá hverjum og einum, heldur er dæmið sett upp þannig að á ákveðnum tíma dags mega börnin spila ef þau eru búin að læra, næra sig, fara á æfingu eða ljúka tilfallandi verkefnum í lífi hvers og eins.
 

2. Hvenær erum við að spila tölvuleiki

Ræðið við börnin ykkar og takið eftir því sjálf hvenær barnið sækir mest í að spila tölvuleiki, er það þegar barnið er glatt, þegar því líður ekki vel, eða þarna einhverstaðar á milli. Er það þegar foreldrarnir hafa ekki tíma fyrir barnið? Eða er það við einhverjar aðrar vel skilgreindar aðstæður? Þetta gefur okkur góða hugmynd um hvort inngrip sé nauðsynlegt.

Reynum að hafa umhverfið þannig að barnið sé að spila þegar það er með vinum sínum, því líður vel og er hamingjusamt. Grípum inn í ef barnið er að spila þegar því líður illa, eða er einmanna. Það skapar mun heilbrigðara umhverfi og verður árangursríkara fyrir alla aðila.


3. Hvað má barnið spila lengi? 

Það er gullna spurningin sem ekki er hægt að svara í erindi sem þessu með ákveðnum stöðluðum tíma, miðað við aldur barns. En mælt er með því að skoða hvernig barnið spilar tölvuleiki: Er barnið að sækja í félagsskap í gegnum tölvuna, vegna þess að það er ekki í skipulögðu frístundastarfi? Er það að drepa tímann á milli æfinga? Er það að spila þegar það er búið að borða, læra, æfa og taka til í herberginu sínu?

Við erum öll mismunandi, við þurfum að finna jafnvægi fyrir hvert og eitt okkar. Pössum okkur að gera ekki lítið úr þeim félagslega þætti sem fylgir því að spila tölvuleiki og ef þetta er sá þáttur sem stuðlar að mestri félagslegri virkni barnsins, hvað gerum við þá?: Bjóðum vinunum yfir til að spila saman, bjóðum upp á hollan og góðan mat fyrir þau, höldum sykri og orkudrykkjum í lágmarki, drekkum vatn, og svo má draga skarann í sund eða aðra afþreyingu, og það má jafnvel búa til okkar eigin útgáfu af tölvuleiknum í formi útileiks. Gerum okkar allra besta til að búa til heilbrigt umhverfi og nýta áhugamálið sem tölvuleikir eru sem tól til þess.


4. Búum ekki til vandamál að óþarfu

Þetta er afar mikilvægur punktur og það kemur mjög oft upp, að foreldrar hafi áhyggjur af börnunum sínum vegna tölvuleikjaspilunar. Í mörgum tilfellum eru börnin samt sem áður að standa sig vel í skóla, eru að stunda íþróttir af kappi, hafa félagslíf, fara að sofa á skikkanlegum tíma og okkur finnst þau samt spila of mikla tölvuleiki. Ef þau væru ekki í tölvuleik væri afþreying líklega samt sem áður í formi skjátíma hjá krökkum á þessum aldri, og spyrja má hvort sá vettvangur sé nokkru skárri - eru samfélagsmiðlar betri vettvangur en tölvuleikir?


5. Viðurkennum tölvuleiki sem áhugamál

Þetta er gríðarlega mikilvægt, því vandamálið er í mörgum tilfellum hjá okkur fullorðna fólkinu, því við vitum ekki betur. Við höfum ekki skilning á tölvuleikjum, höfum ekki áhuga á því að heyra hvað barninu okkar gengur vel í tölvuleiknum, eða hvað það er að gera, eða með hverjum það er að spila. Sinnum þessu áhugamáli barnanna okkar, sýnum áhuga, hvetjum það áfram eins og í öðrum íþróttum til að gera vel, að vera besta útgáfan af sjálfum sér sama hvort það sé í stafrænum heimi eða á plánetunni jörð.

Farsæld, velferð og vellíðan barna

Hafir þú áhyggjur af velferð barns bendum við á úrræði Farsæld Barna og Ertu Okei:

Farsæld Barna veitir upplýsingar um hvert má leita þegar áhyggjur vakna um farsæld barns. Nánari upplýsingar má nálgast hér: https://www.farsaeldbarna.is/

 

Ertu Okei veitir upplýsingar um hvert má leita þegar áhyggjur vakna um andlega vellíðan barns. Nánari upplýsingar má nálgast hér: https://www.ertuokei.is/

bottom of page