LÖG RAFÍÞRÓTTASAMTAKA ÍSLANDS

Samþykktir


1.gr. 
1.1 Félagið heitir Rafíþróttasamtök Íslands (RÍSÍ)
1.2 Aðsetur og varnarþing RÍSÍ er í Reykjavík


2. gr. 
2.1 Tilgangur RÍSÍ er að vekja athygli á og styðja þróun og iðkun rafíþrótta (e. esports) á Íslandi. 
a. Að kynna rafíþróttir sem áhugamál sem elur með sér jákvæða ávinninga fyrir iðkendur þegar það er stundað í réttu jafnvægi við aðra hluta af heilbrigðum lífsstíl. 
b. Að kynna iðnaðinn sem risið hefur í kringum rafíþróttir úti í heimi sem vettvang sem skapað getur störf og reynslu á Íslandi.
c. Að styðja við grasrótarstarf rafíþrótta á Íslandi í gegnum fjárstyrki og miðlun á þekkingu og reynslu. 
d. Að aðstoða iðkendur við að komast að og taka þátt í keppni á erlendri grundu sem og á Íslandi.
e. Félaginu er ekki ætlað að vera æðsti aðili rafíþrótta á Íslandi og er ekki til komið til að setja lög og reglur um iðkun rafíþrótta á Íslandi. Þess í stað leitast félagið eftir því að marka stefnu í málefnum rafíþrótta sem miðar að því að skapa heilbrigt umhverfi fyrir iðkendur og framfylgja þeirri stefnu, því má vera að skilyrði séu fyrir aðkomu félagsins að hverskonar starfi sem það hyggst styrkja.
2.2 RÍSÍ starfar að öllu leyti sjálfstætt og er hlutlaust varðandi stjórnmál og trúarbrögð. RÍSÍ skal gæta jafnræðis og jafnréttis. Skulu allir vera jafnir fyrir lögum og reglugerðum RÍSÍ og njóta réttinda án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. 


3. gr.
3.1 Tilgangi sínum hyggst félagið ná með: 
a. Framleiðslu og dreifingu innanlands á kynningarefni um Rafíþróttir og hvernig þær eru stundaðar bæði á Íslandi og úti í heimi.
b. Framleiðslu og dreifingu á efni til fræðslu um áhrif iðkunar rafíþrótta og hvernig má stunda rafíþróttir á heilbrigðan hátt.
c. Úthlutun á styrkjum til framtaka sem miða að þróun rafíþrótta á Íslandi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
d. Úthlutun á styrkjum til keppni innanlands sem og erlendis að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
e. Miðlun á þekkingu og reynslu til einstaklinga og félaga sem starfa á sviði rafíþrótta á Íslandi.
f. Stuðning við reglulega samkeppni innanlands.
g. Standa að fyrirlestrum og námskeiðum tengdum öllum hliðum rafíþrótta frá innlendum og erlendum sérfræðingum.


4. gr. 
4.1. Félagið er opið öllum sem hafa náð 16 ára aldri og hafa greitt ársgjald félagsins. Félagar undir 18 ára þurfa samþykki foreldra til inngöngu.
4.2. Stjórn félagsins áskilur sér rétt til þess að takmarka fjölda meðlima félagsins komi það niður á starfsemi félagsins og getu þess að ná markmiðum sínum að taka við fleiri meðlimum.


5. gr. 
Starfstímabil félagsins er almanaksárið.  Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs.  Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi. 


6. gr. 
6.1. Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. október ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti.  Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála.  Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
Kosning fundarstjóra og fundarritara
Skýrsla stjórnar lögð fram
Reikningar lagðir fram til samþykktar
Lagabreytingar
Ákvörðun félagsgjalds
Kosning stjórnar
Önnur mál
6.2. Stofnfundur félagsins 24. september, 2018 þjónar tilgangi fyrsta aðalfundar og er þar kosin stjórn félagsins sem situr fram að næsta aðalfundi, sem skal eiga sér stað eigi síðar en 1. október 2019.


7.gr. - Skipulag Stjórnar RÍSÍ
7.1. Stjórn RÍSÍ skipa
a. Formaður
b. Fjórir meðstjórnendur
7.2. Varamaður tekur sæti í stjórninni, ef aðalmaður forfallast.
7.3. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.


8.gr. - Kosning Stjórnar RÍSÍ
8.1. Stjórn RÍSÍ er kosin á aðalfundi félagsins til eins árs í senn. Kosning skal fara þannig fram:
a. Kosning formanns
b. Kosning fjögurra meðstjórnenda
c. Kosning eins varamanns
8.2. Allar kosningar til embættis formanns og stjórnar RÍSÍ eru leynilegar og skriflegar. Kosning skal vera bundin við þá sem gefa kost á sér og er atkvæði aðeins gilt, ef kosnir eru jafnmargir og kjósa á.
8.3. Til þess að ná kjöri sem formaður RÍSÍ, þarf meirihluta greiddra atkvæða. Náist ekki meirihluti við fyrstu kosningu, skal kjósa á ný, bundinni kosningu, um þá tvo aðila, sem flest atkvæði hlutu. Ræður þá einfaldur meirihluti atkvæða. Verði þeir jafnir skal kjósa á ný með sama hætti og verði þeir enn jafnir, ræður hlutkesti.
8.4. Við kosningu á milli aðila vegna annarra embætta í stjórn RÍSÍ gildir sú regla, að þeir sem flest atkvæði fá eru rétt kjörnir. Þar af teljast þeir 4 einstaklingar sem hlutu flest atkvæði kjörnir sem meðstjórnendur. Fái einstaklingar, sem kjósa á, jafnmörg atkvæði, og hafi það áhrif á skipun stjórnar, skal kjósa um þá á ný, bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir, ræður hlutkesti.


9. gr. - Fjármögnun starfsemi RÍSÍ
9.1. Félagsgjöld eru rukkuð árlega og greiðir einstaklingur 5000 kr. í árgjald
9.2. RÍSÍ leitast einnig eftir því að fjármagna starfsemi sína með styrkjum frá stjórnvöldum, fyrirtækjum, einstaklingum og öðrum.
9.3. RÍSÍ getur haldið fjáröflunarviðburði.


10. gr. - Verkaskipting stjórnar RÍSÍ
10.1. Stjórn RÍSÍ kýs varaformann, ritara og gjaldkera úr hópi stjórnarmanna til eins árs í senn.
10.2. Stjórn RÍSÍ skal koma saman til fundar minnst 4 sinnum á ári eða eins oft og þurfa þykir. Formaður boðar til funda og stýrir þeim. Ef meirihluti stjórnar óska eftir fundi, skal formaður boða til hans. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundi en verði atkvæði jöfn, ræður atkvæði formanns.
10.3. Stjórnin skiptir með sér verkum að öðru leyti en ákveðið er í lögum þessum.
10.4. Gjaldkeri RÍSÍ fer með prókúru en allar meiriháttar skuldbindingar af hálfu RÍSÍ skulu samþykktar af stjórn.


11. gr. - Starfssvið stjórnar RÍSÍ
11.1. Starfssvið stjórnar RÍSÍ er,
a. Að framkvæma ályktanir af aðalfundi,
b. Að bera ábyrgð á fjármálum RÍSÍ,
c. Að vinna að eflingu rafíþrótta á Íslandi,
d. Að marka stefnu RÍSÍ í málefnum tengdum rafíþróttum á Íslandi, iðkun þeirra og keppni,
e. Að ákvarða skilyrði og verkferla til umsóknar á styrkjum til RÍSÍ frá einstaklingum og fyrirtækjum á sviði rafíþrótta á Íslandi,
f. Að tefla fram landsliðum í rafíþróttum í keppni á alþjóðavettvangi og bera ábyrgð á umgjörð þeirra,
g. Að koma fram hérlendis og erlendis fyrir hönd RÍSÍ í fjölmiðlum og á ráðstefnum,
h. Að skera úr ágreiningi eða taka ákvarðanir um málefni sem lög þessi ná ekki yfir.
11.2. Stjórn RÍSÍ og allir þeir sem koma fram á vegum RÍSÍ skulu fara eftir þeim lögum og reglugerðum, sem gilda á hverjum tíma.


12. gr. - Reglugerðir
12.1. Stjórn RÍSÍ setur nauðsynlegar reglugerðir um þau málefni, sem snúa að allri framkvæmd laga þessara. Nær það til allra breytinga á gildandi reglugerðum sem og setningu nýrra reglugerða.
12.2. Nýjar reglugerðir og breytingar á gildandi reglugerðum skulu kynntar meðlimum félagsins rafrænt og taka þær gildi samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar RÍSÍ. Ekki þarf að birta þær með sérstökum hætti svo þær öðlist gildi.
12.3. Óski meðlimir eftir setningu nýrra reglugerða eða breytingu á gildandi reglugerðum skal slíkum óskum beint til stjórnar RÍSÍ.


13. gr. - Skilyrði til fjárstuðnings eða samstarfs við RÍSÍ
13.1. Stjórn RÍSÍ skal gefa út skjal, sem hægt er að nálgast á vefnum, sem útlistar skilyrði til fjárstuðnings eða samstarfs við RÍSÍ.
13.2. Stjórn RÍSÍ getur ákveðið undanþágu frá sumum eða öllum þessum skilyrðum með meirihluta atkvæða stjórnar.
13.3. Lokaákvörðun um fjárstuðning eða samstarf við RÍSÍ er í höndum meirihluta stjórnar.


14. gr. - Ráðstöfun rekstrarafgangs/hagnaði af starfsemi félagsins
Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið í samræmi við tilgang félagsins á þá vegu sem getið er í grein 3.1.


15. gr. 
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til þess góðgerðafélags sem tilnefnt er og um verður kosið, á þeim aðalfundi þar sem ákvörðun um slit félagsins er tekin.

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi
 Dagsetning: 24.09.2018.

Hafðu samband:

Sími: 6994647

Mail: rafithrottir@rafithrottir.is​
 

  • Twitter Clean